Karl Bretaprins sendi Tony Blair ítrekað löng handskrifuð bréf um viðkvæm pólitísk málefni sem forsætisráðherranum fyrrverandi þótti afar óviðeigandi. Þetta kemur fram í dagbókarfærslum fyrrum upplýsingafulltrúa Blair, Alastair Campbell, sem birt voru í The Guardian í dag.
Blair átti reglulega einkasamtöl við Karl sem hann mat mikils en honum þótti erfingi krúnunnar stundum ganga of langt í yfirlýsingum sínum og afskiptasemi varðandi pólitísk málefni.
Meðal þeirra pólitísku mála sem Karl tjáði sig um opinberlega í valdatíð Blair voru erfðabreytt matvæli og refaveiðar. Eina dagbókarfærsluna má skilja svo að Blair hafi þótt afskipti prinsins svo ergileg að hann hafi minnst á það við drottninguna, móður hans.
„TB hitti drottninguna og virðist ekki hafa lagt hart að henni varðandi Karl en hann var hundfúll,“ stóð í færslunni.
„Tony Blair kunni að meta einkasamtöl sín og Karls og virðir þann rétt sem Karl hefur til að tjá sig um mikilvæg málefni,“ sagði Campbell við Guardian.
„En á þessu tímabili virtist fjölmiðlateymi Karls vera virkt í því að andmæla stefnu stjórnvalda opinberlega, ekki bara hvað varðaði refaveiðarnar, sem allir vissu að þeir voru ósammála um, heldur líka varðandi erfðabreytt matvæli, Kína og landbúnað.“