Fjármálaráðherrar Evruríkjanna hófu í dag viðræður um það með hvaða hætti sé best að koma í veg fyrir yfirvofandi gjaldþrot Grikklands. Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tryggðu Grikklandi 110 milljarða evra björgunarpakka á síðasta ári til að stemma stigu við erfiðu ástandi í landinu. Fjárhæðin verður greidd í nokkrum skrefum.
Til stendur að greiða 12 milljarða evra til Grikklands á næstu dögum. Talið er að Grikkland þurfi nauðsynlega á þessari greiðslu að halda sem fyrst þar sem mikilvægir gjalddagar eru framundan.
Greinendur hafa varað við því að slík fjárhagsaðstoð geti haft neikvæð áhrif á allt evrusvæðið, sérstaklega fyrir viðkvæm hagkerfi á borð við Írland, Spán, Portúgal og Ítalíu. Þá hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum hvatt Evrópusambandið til að finna lausn á málum sem fyrst af ótta við að ástandið í Grikklandi geti haft áhrif út fyrir Evrópu.
Stjórnvöld í Grikklandi hafa nýlega óskað eftir öðrum björgunarpakka frá Evrópusambandinu og AGS sem gæti hljóðað upp á jafn háa fjárhæð og sá fyrri.