Tveir sænskir blaðamenn, 29 og 30 ára gamlir, eru horfnir í Ogaden héraði í Eþíópíu. Uppreisnarmenn segja að þeir séu í haldi eþíópska hersins, að sögn fréttavefjar Dagens Nyheter.
Blaðamennirnir voru á viðsjárverðu svæði, sem í raun er lokað fréttamönnum. Þeir komust þangað í gegnum Sómalíu. Ætlun þeirra var að vera í slagtogi með uppreisnarmönnum í ONLF, frelsisher Ogaden.
Fulltrúar ONLF í Bretlandi segja í tilkynningu að dagblað, hliðhollt stjórnvöldum, hafi birt nöfn Svíanna og greint frá því að þeir hafi verið handteknir. Þá er sagt að þar hafi komið fram að leiðsögumenn Svíanna hafi verið drepnir.