Danska veðurstofan varar við því að himnarnir kunni að opnast aftur nú síðdegis með skýfalli í Kaupmannahöfn og annars staðar á Sjálandi, þó ekki jafn miklu og varð í gær. Í dag getur rignt meira en 15 mm á hálftíma. Viðvörunin nær til Austur-Sjálands, Lálands, Falster og Manar.
Úrkoman í gær var allt að 150 mm á tveimur klukkustundum á Sjálandi, að sögn fréttavefjar Politiken. Mörg hundruð húseigenda hafa leitað hjálpar hjá björgunarfélaginu Falck og vatnstjón hefur orðið mjög víða.
Enn eru truflanir á umferð til og frá Kaupmannahöfn eftir óveðrið í gær, að sögn fréttavefja Berlingske og Jyllands-Posten. Flóð loka þjóðvegum á fjórum stöðum og lestarsamgöngur eru enn í uppnámi víða vegna úrhellisins í gær. Mörg lestarspor á aðalbrautarstöðinni í Kaupmannahöfn virka ekki en lestarferðir milli Kastrup flugvallar og miðborgarinnar eru hafnar.
Lestarferðir á milli minni staða liggja víða enn niðri og seinkanir eru á öðrum leiðum.