ESB aðstoðar Norður-Kóreu

Alvarlegt ástand ríkir í sumum hlutum Norður-Kóreu vegna matvælaskorts.
Alvarlegt ástand ríkir í sumum hlutum Norður-Kóreu vegna matvælaskorts. Reuters

Evrópusambandið ætlar að veita Norður-Kóreu neyðamatvælaaðstoð til að freista þess að hjálpa um 650 þúsund manns sem er taldir eru í lífshættu vegna hungursneyðar í landinu. Nemur aðstoðin jafnvirði um 1,6 milljörðum króna.

Er ástandið í Norður-Kóreu sagt orðið svo slæmt að fólk sé farið að bregða til þess ráðs að borða gras. Ekki er von á næstu uppskeru af korni í landinu þar til í október.

Eru matvælin ætluð börnum undir fimm ára sem lögð hafa verið inn á sjúkrahús vegna alvarlegs næringarskorts, þunguðum konum, sjúklingum og eldra fólki. Hefur verið komist að samkomulagi um það að strangt eftirlit verði með aðstoðinni til að tryggja það að hún berist þeim sem hún er ætluð.

„Það er bersýnilegt að viðvarandi matvælaskortur í Norður-Kóreu sé að verða að brýnni þörf í sumum landshlutum. Ef við komumst að því á einhverju stigi að verið sé að veita aðstoðinni eitthvert annað en ætlað er þá hikum við ekki við að draga hana til baka,“ segir Kristalina Georgieva, mannúðaraðstoðarstjóri ESB.

„Við getum einfaldlega ekki leyft fólki að deyja úr hungri af þess vegna erum við staðráðin í því að fylgjast með móttöku aðstoðarinnar skref fyrir skref.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert