Lögreglan í New York gagnrýnd

Hjónin Dominique Strauss-Kahn og Anne Sinclair á Manhattan um helgina.
Hjónin Dominique Strauss-Kahn og Anne Sinclair á Manhattan um helgina.

Lögreglan í New York sætir nú vaxandi ámæli fyrir það hvernig staðið var að rannsókn á kæru á hendur Dominique Strauss-Kahn, fyrrum framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem var handtekinn á Kennedyflugvelli þegar hann ætlaði að ferðast til Frakklands til fundar við evrópska þjóðarleiðtoga. 

Strauss-Kahn var ákærður fyrir að beita herbergisþernu á lúxushóteli í New York kynferðislegu ofbeldi. Bandaríska blaðið New York Times segir, að vegna þess að Strauss-Kahn var á leið úr landi hafi stjórnendum lögreglunnar þótt mikilvægt að handtaka hann strax vegna þess að það hefði litið illa út ef hann færi úr landi og síðan neitað að snúa til baka.  

„Ég býst við, að í fullkomnum heimi hefðu þeir ekki þurft að handtaka hann strax," hefur blaðið eftir heimildarmanni, sem sagður er þekkja vel til rannsóknarinnar. „Þeir hefðu getað rannsakað gögnin betur. En ég held að þeir hafi talið sig verða að ná honum út úr vélinni og það breytti málinu talsvert."

Strauss-Kahn var á föstudag leystur úr stofufangelsi í New York en í ljós hefur komið, að herbergisþernan var ekki eins trúverðugt vitni og upphaflega var talið. New York-lögreglan hafði raunar áður sætt gagnrýni fyrir það hvernig hún stóð að málinu.  

New York Times hefur eftir Eugene J. O’Donnell, lagaprófessor við Jay College á Manhattan, að þetta mál afhjúpi þau vinnubrögð innan bandaríska dómskerfisins, sem venjulegt fólk, sem kemst í kast við lögin, þurfi að sæta. Gallanir hafi hins vegar verið afhjúpaðir nú þar sem í hlut eigi heimsþekktur einstaklingur sem njóti þjónustu fyrsta flokks lögmanna.  

Götublaðið New York Post hélt því fram um helgina, að herbergisþernan hefði lengi stundað það að selja gestum á hótelinu blíðu sína og raunar haldið því áfram eftir að málið kom upp. Hún hafi gert sér fulla grein fyrir því, að Strauss-Kahn væri ríkur og valdamikill enda var hann fastagestur á hótelinu.   

Blaðið segir, að enginn beri á móti því, að þernan hafi haft munnmök við Strauss-Kahn inni á hótelherberginu. Heimildarmenn segi að  konan hafi síðan heimtað greiðslu en Strauss-Kahn neitað að borga.  Í kjölfarið hafi komið til orðaskipta og jafnvel átaka á milli þeirra. 

Lögmenn Strauss-Kahns, þeir Benjamin Barfman og William Taylor, vísa þessu á bug í yfirlýsingu. Segja þeir að engar viðræður hafi átt sér stað milli Strauss-Kahn og þernunnar um peninga.   

New York Post  hefur eftir saksóknurum, að það hafi verið mjög erfitt að fá skýra mynd af því sem gerðist í herberginu vegna þess að konan hafi orðið margsaga.  

New York Times segir, að meðal annars hafi komið í ljós, að konan, sem er frá Gíneu, hafi veitt rangar upplýsingar þegar hún sótti um dvalarleyfi í Bandaríkjunum. Þá hafi hún haft tengsl við skipulögð glæpasamtök.

Þá segir blaðið, að daginn eftir atvikið í hótelinu hafi verið hljóðritað símtal, sem konan átti við vin sinn, en sá situr í fangelsi fyrir að hafa 180 kíló af maríjúana í fórum sínum.  

Hafi runnið tvær grímur á lögregluna þegar símtalið var þýtt fyrir hana en þernan og maðurinn töluðu saman á tungumálinu Fulani.  

Konan sagði m.a: „Hafðu ekki áhyggur, þessi gaur á fullt af peningum. Ég veit hvað ég er að gera.

Frétt New York Times

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert