Niðurgreiðir óarðbæra ofveiði

Fiskveiðisamningarnir þykja skila litlu fyrir ESB og Afríkuríkin. Myndin er …
Fiskveiðisamningarnir þykja skila litlu fyrir ESB og Afríkuríkin. Myndin er úr myndasafni. Reuters

Evrópusambandið greiðir háar fjárhæðir fyrir fiskveiðisamninga sem skila litlu og stuðla að ofveiði, að því er fram kemur í leynilegum skýrslum sem Jyllands-Posten hefur undir höndum.

Viðskiptavefurinn epn.dk greinir frá þessu og segir að leyniskýrslurnar veki verulegar efasemdir um grundvöll fiskveiðisamninga sem ESB hefur gert við fátækra þjóðir, m.a. í Afríku.

Blaðið segir að ESB borgi um 1,1 milljarð danskra króna (24,5 milljarða ÍKR) á ári fyrir aðgang ofvaxins fiskveiðiflota ríkja sambandsins til veiða á miðum annarra þjóða. 

Opinberlega fái skip ESB, aðallega frá Suður-Evrópu, einungis leyfi til að veiða „umframafla“ sem samningslöndin ýmist geti ekki eða vilji ekki veiða. Greiðslurnar séu merktar góðum og gegnum markmiðum á borð við að tryggja sjálfbæra fiskveiðistefnu í þessum löndum, styrkja innviði og byggðarlög.

Raunin er allt önnur, samkvæmt því sem kemur fram í matsskýrslum um stærstu og dýrustu samningana sem gerðir voru við Marokkó og Máritaníu.

Þar kemur m.a. fram að verið sé að veiða úr stofnum sem svo hart er sótt í að þeir ná ekki að viðhalda stærð sinni. Samningurinn við Marokkó þykir sérlega gagnrýnisverður því hann snýst um veiðar fyrir ströndum Vestur-Sahara sem Marokkó hersat árið 1975.

Þar hafa sjómenn ESB svo lítið upp úr veiðunum að það væri ódýrara fyrir sambandið að  borga þeim fyrir að vera heima í fríi. Danir greiddu atkvæði gegn endurnýjun fiskveiðisamningsins við Marokkó í síðustu viku. 

Matvælaráðherra Dana hefur hótað því að kjósa einnig gegn endurnýjun fiskveiðisamnings við Máritaníu þegar kemur að endurnýjun hans á næsta ári. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert