Barack Obama ekki skemmt

Barack Obama svaraði spurningum á Twitter. Mynd úr safni.
Barack Obama svaraði spurningum á Twitter. Mynd úr safni. Reuters

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, varar andstæðinga sína í Repúblikanaflokknum við því að gæla við það að leggjast gegn því að lögbundið skuldaþak landsins verði hækkað. Tíminn til þess að koma í veg fyrir efnahagslegar hamfarir á heimsvísu sé naumur.

„Lánshæfi okkar yrði fært niður, vextir myndu hækka verulega og það gæti ýtt okkur inn í aðra kreppu - eða verra," sagði Obama. „Þetta er eitthvað sem á að ræða léttúðlega.“

Obama lét ummælin falla í dag, en á morgun tekur hann á móti leiðtogum beggja deilda Bandaríkjaþings í Hvíta húsinu. Demókratar eru í meirihluta í öldungadeildinni, en Repúblikanar í fulltrúadeildinni.

„Það sem ég vonast til þess að sjá á næstu vikum er það að fólk láti af kreddufestu sinni, heldur komi saman og segi: Þetta er skynamleg leið til þess að draga úr hallanum,“ bætti hann við.

Repúblikanar munu ekki styðja hækkun skuldaþaksins nema til komi niðurskurðar sem svari að minnsta kosti til hækkunarinnar. Þeir hafa jafnframt sagst munu leggjast gegn öllum hugmyndum um skattahækkanir.

„Skuldaþakið á ekki að nota eins og byssu sem beint er að höfði Bandaríkjamanna til þess að knýja á um skattaafslátt fyrir einkaþotueigendur eða fyrir olíu- og gasfyrirtæki sem hafa hagnast um milljarða dollara vegna mikillar hækkunar eldsneytisverð,“ sagði Obama.

Ofangreind ummæli lét Obama falla í fyrirspurnartíma sem hann stóð fyrir á samskiptavefnum Twitter, en þetta er í fyrsta skipti sem forseti Bandaríkjanna nýtir sér þá tækni.

Hiti hefur verið í mönnum í Washington vegna málsins, en fréttastofa AFP greinir frá því, og hefur eftir hátt settum starfsmanni Repúblikana, að Obama hafa átt leynilegan fund með John Boehner, leiðtoga fulltrúadeildarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert