Olíufélagið BP vill fá heimild til að hætta að greiða bætur til þeirra sem urðu fyrir áfalli vegna olíulekans á Mexíkóflóa. Í skýrslu frá félaginu segir að áhrif lekans á umhverfi séu mun minni en reiknað var með.
Í skýrslunni segir að ferðaþjónusta á svæðinu sé í miklum blóma, búið sé að opna öll veiðisvæði á flóanum og mjög góð rækjuveiði sé úr flóanum.
Tölur styðji ekki að einstaklingar og fyrirtæki hafi orðið fyrir því tjóni sem lagt var til grundvallar þegar bæturnar voru ákveðnar.
Olíulekinn á Mexíkóflóa, sem BP bar ábyrgð á, er mesta olíuslys sem um getur. Ellefu menn fórust þegar sprenging varð í olíupalli og olía tók að leka úr olíulindinni. Félaginu var gert að bera kostnað af hreinsun olíunnar og jafnframt var því gert að greiða bætur til þeirra sem urðu fyrir tjóni.