Fangi tekinn af lífi í umdeildu máli

Mexíkóski fanginn Humberto Leal García var tekinn af lífi í fangelsi í Texas í nótt eftir að hæstiréttur Bandaríkjanna og fylkisstjóri fylkisins höfnuðu beiðni Barack Obama forseta um að þyrma honum til þess að gæta hagsmuna landsins erlendis.

Hafði Leal García verið dæmdur til dauða fyrir að hafa nauðgað og myrt 16 ára gamla stúlku árið 1994. Þar sem hann er hins vegar mexíkóskur ríkisborgari bar bandarískum yfirvöld skylda til að tilkynna konsúlskrifstofu Mexíkó um málið svo að hægt væri að veita manninum lögfræðiaðstoð.

Það var hins vegar ekki gert og gæti það hafa haft úrslitaáhrif um það að Leal García var dæmdur. Óttast stjórnvöld í Bandaríkjunum viðbrögð heimsbyggðarinnar þar meðferðin á fanganum telst brot á alþjóðalögum. Hafa háttsettir diplómatar, yfirmenn hersins og stjórnmálamenn sagt að aftakan gæti sett líf Bandaríkjamanna í hættu á erlendri grundu.

Hafði Obama forseti farið fram á að aftökunni yrði frestað á meðan sett væru lög til að leysa málið. Hæstiréttur hafnaði hins vegar þeirri kröfu Hvíta hússins að aftökunni væri frestað. Slíkt hið sama gerði Rick Perry, fylkisstjóri í Texas en hann er eindreginn stuðningsmaður dauðarefsinga. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu.

Ættingjar Humberto Leal García við fangelsið þar sem hann var …
Ættingjar Humberto Leal García við fangelsið þar sem hann var tekinn af lífi. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert