Lítil flóðbylgja náði Kyrrahafsströnd Japans í morgun eftir að jarðskjálfti, sem mældist 7,3 stig, varð undan norðausturströnd eyjarinnar Honshu. Ekkert tjón hlaust af.
Flóðbylgjan var aðeins um 10 sentimetra há þegar hún lenti á ströndinni við hafnarbæina Soma og Ofunato. Jarðskjálftinn, sem olli bylgjunni, fannst víða á Honshu, þar á meðal í Tókýó sem er 400 km frá upptökum skjálftans.
Upptökin voru á svipuðum slóðum og upptök skjálftans, sem mældist 9 stig og varð 11. mars. Í kjölfarið gekk flóðbylgja á land sem olli miklu tjóni.