Forseti Sviss álasar Evrópusambandinu fyrir að standa illa að tvíhliða samningum og segir að embættismenn sambandsins hugsi eingöngu um fjárhagslegan ávinning.
Á milli Sviss og ESB eru yfir 120 tvíhliða samningar í gangi. ESB hefur lýst sambandi sínu við Svisslendinga sem óarðbæru og flóknu.
„Hegðun ESB er óásættanleg,“ sagði Micheline Calmy-Rey, forseti Sviss í viðtali við þýska dagblaðið SonntagsZeitung.
Calmy-Rey, sem einnig gegnir starfi utanríkisráðherra landsins, sagði ennfremur að ráðamenn í Brussel hefðu einvörðungu áhuga á fjárhagslegri afkomu og reglugerðum sem tryggðu velsæld þegna sambandsins og fyrirtækja landanna í ESB.
„Þegar viðhorfið er slíkt, þá gerist ekkert jákvætt,“ sagði hún í viðtalinu. „Brussel verður að skiljast að þetta snýst ekki bara um peninga. Við búum í miðri Evrópu, ESB er mikilvægasti pólitíski bandamaður okkar og eðlilegt að við eigum viðskipti við sambandið,“ sagði hún.
„Við viljum enga sérmeðferð, við biðjum um heiðarlegar aðstæður.“
Hún sagði að þar sem Sviss væri ekki í ESB, þá væri óhugsandi að sambandið ætlaðist til þess að svissnesk stjórnvöld færu eftir öllum þeim tilskipunum sem samþykktar væru í Brussel.
Á síðasta ári sagði varforseti Evrópunefndarinnar, Viviane Reding, að tvíhliða samningar Brussel og Sviss væru úreltir, flóknir, ógagnsæir og erfiðir í framkvæmd.
Bæði ESB og Svisslendingar hafa lýst yfir vilja sínum til að einfalda samningana.