Bjargaði sjö ára stelpu frá níðingi

Reuters

85 ára gamalli þýskri konu tókst að bjarga ungri stúlku frá barnaníðingi síðastliðinn föstudag þegar hann reyndi að draga hana með sér inn í runna. Fréttavefurinn Thelocal.de greinir frá þessu í dag.

Atburðurinn átti sér stað í borginni Duisburg í Þýskalandi. Konan sá hvar maður á þrítugsaldri reyndi að draga stúlkuna með sér og kom í veg fyrir það með því að fara á milli þeirra og hindra manninn síðan í að ná til stúlkunnar.

Maðurinn lét höggin dynja á konunni og sneri upp á handlegg hennar þannig að hann brotnaði. Þá gerði hann tilraun til þess að ræna veski konunnar að sögn lögreglu.

Þegar vegfarendur komu konunni til aðstoðar flúði maðurinn en lögreglan hafði hendur í hári hans nokkru síðar.

Konan var flutt á sjúkrahús þar sem gert var að sárum hennar en hún var víða marin og hafði auk þess hlotið skurði við barsmíðarnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka