Samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar í Bretlandi sem birtar voru í dag myndu 81% breskra kjósenda greiða atkvæði gegn því að taka upp evru sem gjaldmiðil í landinu ef kosið yrði um það í þjóðaratkvæði. Einungis 8% vildu skipta breska pundinu út fyrir evruna.
Í sömu könnun var spurt um afstöðu fólks til þess hvort Bretar ættu áfram að vera hluti af Evrópusambandinu. Tæpur helmingur, eða 49%, sögðust myndu kjósa gegn því að vera áfram innan ESB ef kosið yrði um það nú á meðan fjórðungur sagðist myndu styðja áframhaldandi veru í sambandinu.
Þá var einnig spurt hvort fólk teldi að aðild að ESB hefði verið jákvæð eða neikvæð fyrir Bretland og sögðust 57% telja að veran í sambandinu hefði verið neikvæð en um þriðjungur, eða 32%, taldi hana hafa verið jákvæða.
Skoðanakönnunin var gerð af rannsóknarfyrirtækinu Angus Reid dagana 2. til 4. júlí síðastliðinn og voru rúmlega tvö þúsund manns spurðir.