Michele Bachmann, sem boðið hefur sig fram til forsetaframboðs í Bandaríkjunum, sætir nú gagnrýnir vegna þess að fullyrt er að eiginmaður hennar hafi rekið ráðgjafaþjónustu sem m.a. miðaði að því að afhomma samkynhneigt fólk.
Sjónvarpsstöðin ABC News fjallaði um þetta mál í gær. Þar kom fram að Marcus Bachmann hefði um tíma rekið ráðgjafafyrirtæki. Einn af þeim sem gengist hefur undir meðferð þar sagði að meðferðin hafi gengið út á að lesa biblíuna og biðja til guðs um að sjúklingurinn yrði ekki lengur hommi. Maðurinn sagði að í bæninni hefði guð verið beðinn um fyrirgefningu gegn loforði um að hann hætti að vera samkynhneigður.
Fleiri menn komu fram í þættinum og höfðu svipaða sögu að segja. Marcus Bachmann hefur neitað því að hafa staðið fyrir starfsemi af þessu tagi.