Giulio Tremonti, fjármálaráðherra Ítalíu, fór af fundi kollega sinna í Evrópusambandinu (ESB) áður en fundinum lauk. Hann kvaðst þurfa að fara heim til að vinna að niðurskurðaráætlun.
„Ég sný aftur til Rómar til að ljúka niðurskurðaráætlun minni,“ sagði Tremonti við blaðamenn þegar hann yfirgaf fund fjármálaráðherra frá öllum 27 aðildarríkjum ESB. Þeir ræddu leiðir til að forðast þá hættu vegna skuldakreppu sem nú steðjar að Ítalíu og evrunni.
Ítalska stjórnin kynnti fyrr í þessum mánuði niðurskurðaráætlun til fjögurra ára upp á 40 milljarða evra. Skuldavandi Ítalíu er nýjasta ógnin við evrusvæðið og hlutabréf féllu um meira en 4% á markaði í Mílanó við opnun í morgun.