Tveir danskir lagaprófessorar segja í dag, að hert landamæraeftirlit danskra stjórnvalda sé augljóst brot á Schengen-sáttmála Evrópusambandsins. Komi málið til kasta Evrópudómstólsins muni Danir án efa tapa því.
„Schengen-sáttmálinn segir skýrt, að ekki megi draga úr hraða ökutækja vegna landamæraeftirlits," segja þeir Carsten Willemoes Jørgensen og Karsten Engsig Sørensen í grein í blaðinu Berlingske Tidende. Þeir eru báðir prófessorar við Árósaháskóla.
Þegar myndir, sem birtar hafa verið af landamæraeftirlitinu, eru skoðaðar sést að þetta eftirlit brýtur greinilega í bága við Schengen."
Dönsk stjórnvöld hertu eftirlit á landamærastöðvum við Þýskaland og Svíþjóð. Danir segja að markmiðið sé að koma í veg fyrir smygl á fíkniefnum og öðrum vörum og það sé í samræmi við Schengen-sáttmálann að skoða bíla tilviljanakennt.
Evrópusambandið hefur hins vegar gagnrýnt aðgerðirnar og segja að vel verði fylgst með framkvæmd dönsku reglnanna til að tryggja að þær brjóti ekki Evrópureglur.