Fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, Göran Persson, er sannfærður um að Svíar eigi eftir að taka upp evruna þrátt fyrir þá efnahagskrísu sem evrusvæðið glímir nú við. Þetta kemur fram í ræðu sem hann flutti í vikunni og sænska dagblaðið Dagens industri fjallar um í dag.
Persson sagðist þeirrar skoðunar að óhjákvæmilegt væri að taka upp sameiginlega skattastefnu innan Evrópusambandsins þegar fram liðu stundir og að hækka eftirlaunaaldurinn innan sambandsins í 70 ár.
Hann sagðist telja að Bandaríkin myndu sigrast á sínum efnahagserfiðleikum, einkum vegna tiltölulega ungs vinnuafls, en í ESB væri íbúafjöldinn mun eldri og því væri nauðsynlegt að stuðla að hagvexti og að fólk settist síðar í helgan stein.
Persson sagðist búast við því að ESB færðist enn nær því að verða sambandsríki í kjölfar efnahagskrísunnar innan sambandsins. „Ef við viljum halda evrunni verðum við að samræma efnahagsstefnuna í Evrópu. Við erum að færast í áttina að evrópsku sambandsríki. Kannski er það enn 30 ár í burtu en það er ekki langur tími þegar rætt er um svo stórar breytingar,“ sagði hann.
Aukinn samruni nauðsynlegur
Þá sagði Persson að aukinn samruni innan ESB væri nauðsynlegur til þess að gera sambandinu kleift að keppa við ríki eins og Kína og Bandaríkin. Hann sagði ennfremur að efnahagskrísan á evrusvæðinu snerist ekki lengur bara um Grikkland og Írland. „Hættan er sú að vandamálin leiði til krísu í Frakkland, Bretlandi og á Spáni. Skuldastaða Frakklands er mjög erfið,“ sagði hann.
Í forsætisráðherratíð sinni reyndi Persson að fá Svía til þess að taka upp evruna en því var hafnað í þjóðaratkvæði í september 2003. En hann er engu að síður sannfærður um að þjóðin muni að lokum taka gjaldmiðilinn upp í stað sænsku krónunnar.
„Ég trúi því að Svíþjóð eigi eftir að ganga í Myntbandalag Evrópu þegar það hefur leyst vandamál sín. Ég hef séð svo mörg dæmi um kostnaðinn af því að standa fyrir utan það. Höfum hugfast að þetta eru stærstu viðskiptalönd okkar,“ sagði Persson.