Efnahagserfiðleikarnir á evrusvæðinu hafa leitt til þess að ákvarðanatöku um það hvort Danir skuli stefna að því að taka upp evru í stað dönsku krónunnar hefur verið frestað um a.m.k. ár. Þetta kemur fram í danska dagblaðinu Jótlandspóstinum.
Dönsk stjórnvöld hafa stefnt að því að halda þjóðaratkvæði um upptöku evrunnar um nokkurt skeið en ekki lagt í það enn vegna erfiðleika evrusvæðisins og vaxandi andstöðu almennings heima fyrir samkvæmt skoðanakönnunum.
Haft er eftir Flemming Møller, talsmanni stjórnmálaflokksins Venstre sem leiðir núverandi ríkisstjórn miðju- og hægrimanna í Danmörku, að enn sé markmiðið að kosið verði um evruna. Hugsanlega gæti það gerst í lok árs 2012 ef núverandi stjórn héldi völdum, en þingkosningar fara fram í Danmörku í haust.
Óvíst er hvort áhersla verði lögð á upptöku evrunnar ef vinstriflokkarnir komast til valda í Danmörku að loknum kosningunum en bæði Sósíalíski þjóðarflokkurinn og Enhedslisten, sem er lengst til vinstri í dönskum stjórnmálum, eru andsnúnir upptöku evrunnar.
Danir hafa tvisvar fellt upptöku evrunnar í þjóðaratkvæði. Fyrst árið 1992 og síðar árið 2000.