Rebekah Brooks, fyrrum yfirmaður útgáfufélags News í Bretlandi á dagblöðum, News International, var í dag handtekin af bresku lögreglunni í tengslum við hlerunarmál News of the World.
Í fréttatilkynningu frá Scotland Yard kemur fram að 43 ára gömul kona hafi, hafi verið handtekin vegna ásaka um símahleranir og spillingu. Ekki kemur fram í yfirlýsingunni að það sé Brooks, sem er 43 ára, sem var handtekin en breskir fjölmiðlar halda því fram.
Brooks var ritstjóri News of the World frá 2000 til 2003.
Skapti Hallgrímsson skrifar í Sunnudagsmoggann um News of the World málið og fylgir hér á eftir hluti þeirrar greinar:
Það var sem köld vatnsgusa framan í bresku þjóðina í byrjun síðustu viku þegar upplýst var að spæjari á vegum sunnudagsblaðsins News of the World hefði brotist inn í talhólf í síma unglingsstúlku sem myrt var árið 2002, og með því spillt fyrir rannsókn málsins.
Upplýst var að ekki einungis hefði umræddur spæjari hlerað talhólf stúlkunnar eftir að hún hvarf, heldur eytt þaðan út skilaboðum svo fleiri kæmust fyrir. Lögregla taldi því að stúlkan væri hugsanlega á lífi. Fjölskyldu hennar var gefin von.
Fjölmiðaveldi Ruperts Murdoch er hið næsta stærsta í veröldinni á eftir Disney. Þessi áttræði Ástrali, sem varð bandarískur ríkisborgari árið 1985 og á fjölda miðla um allan heim, hefur lengi verið umdeildur en náð að sigla milli skers og báru; fjöldanum sinnir hann með því að gefa út slúðurblöðin en eignaðist líka virt blöð eins og The Times og The Wall Street Journal. Stjórnmálamenn hafa jafnan þótt tipla varlega í kringum Murdoch, sakir þess hve fjölmiðlar hans eru áhrifamiklir. The Sun studdi á sínum Margret Thatcher forsætisráðherra Breta dyggilega, og síðan eftirmann hennar, John Major, þegar hann sigraði mjög óvænt í þingkosningunum 1992. Í næstu þrennum kosningum tóku blöð Murdochs annað hvort ekki afstöðu eða studdu Tony Blair og Verkamannaflokkinn. Raunar er stundum talið nær óhugsandi að flokkur kæmist til valda í Bretlandi öðru vísi en fjölmiðlar Murdochs lýsti yfir opinberum stuðningi við viðkomandi.
Með fyrstu frétt um innbrot í talhólf ungu stúlkunnar, sem The Guardian birti á mánudegi í fyrri viku, fór af stað snjóbolti sem enginn veit hve stór verður á endanum. Víst er að margir hafa hugsað fjölmiðlabaróninum Murdochs og miðlum hans þegjandi þörfina en enginn hefur þorað að hjóla í hann. Nú gafst hins vegar tækifæri og margir hafa notað sér það; snjókastið hófst af fullum krafti. Hver stjórnmálamaðurinn á fætur öðrum kom fram og gagnrýndi fyrirtæki Murdochs harðlega.
Útgefandinn gamalkunni brást skjótt við: Ákvað að hætta útgáfu News of the World, sem hafði komið út óslitið í 168 ár og Murdoch átt síðan 1969. Hafi Murdoch talið að það myndi lægja öldurnar reyndist það misskilningur. Gagnrýnisraddirnar hækkuðu ef eitthvað var, ekki síst vegna þess að fram komu grunsemdir um að News of the World væri fráleitt eina dagblaðið í eigu News Corp sem hefði óhreint mjöl í pokahorninu.
Meðal annars hélt Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Verkamannaflokksins, langa þrumuræðu í breska þinginu í vikunni þar sem hann sakaði starfsmenn The Sun um að hafa beitt „viðbjóðslegum“ aðferðum til þess að komast yfir upplýsingar um veikindi ungs sonar Brown hjónanna en hann lést vegna veikindanna. Þá sakaði Brown The Sunday Times um að hafa brotist inn á bankareikninga sína. Rupert Murdoch hefur neitað ásökunum Browns og segist m.a. munu svara þeim þegar feðgarnir koma fyrir breska þingnefnd á þriðjudaginn. Þeir hugðust í fyrstu ekki mæta fyrir nefndina; sögðust ekki eiga heimangengt þann dag, en samþykktu á endanum að mæta.
Fram hafa komið ásakanir um svæsnari starfsaðferðir fjölmiðla Murdochs en nokkurn óraði líklega fyrir. Auk þess að hlera síma eru starfsmenn hans eða einkaspæjarar á þeirra vegum sakaðir um að hafa greitt lögreglumönnum fúlgur fjár í mútur fyrir upplýsingar af ýmsu tagi, m.a. um bresku konungsfjölskylduna. Álitið er að hleraðir hafi verið allt að 4.000 símar, m.a. ættingja látinna hermanna og fórnarlamba sprengjuárásarinnar í London fyrir fáeinum árum.
Málið allt er hið vandræðalegasta fyrir ýmsa stjórnmálamenn, m.a. David Cameron forsætisráðherra Bretlands en Brooks er persónulegur vinur Camerons.
Það sem hefur þó valdið Cameron einna mestum vandræðum er að árið 2007 réð hann Andy nokkurn Coulson í starf samskiptastjóra Íhaldsflokksins og sá starfaði náið með honum eftir að Cameron varð forsætisráðherra. Coulson, sem var aðstoðarritstjóri Brooks á News of the World og síðar ritstjóri blaðsins, til 2007, lét af störfum hjá Íhaldsflokknum í byrjun árs. Hann var handtekinn í vikulok vegna rannsóknar á símahlerunum og mútugreiðslum.
Tíðindi fyrri viku voru þau að Murdoch hætti útgáfu títtnefnds News of the World. Tvennt bar hæst í þeirri viku sem nú er að líða. Í fyrsta lagi dró Murdoch til baka tilboð í 61% hlut í breska sjónvarpsrisanum BSkyB. Hann á 39% í fyrirtækinu en vildi eignast það að fullu. Það var honum örugglega þvert um geð að hætta við, en hann lét undan miklum þrýstingi. Það var söguleg stund þegar allir stóru flokkarnir þrír, Íhaldsflokkurinn, Verkamannaflokkurinn og Frjálslyndi demókrataflokkurinn voru á einu máli um að Murdoch bæri að hætta við.
Í annan stað er líklegt að einnig dragi til tíðinda í Bandaríkjunum því alríkislögreglan, FBI, hefur boðað rannsókn á því hvort miðlar Murdochs hafi hugsanlega ráðist inn í talhólf fórnarlamba hryðjuverkaárásarinnar 11. september 2001 og ættmenna þeirra. Ýmsir bandarískir ráðamann hvöttu í vikunni til slíkrar rannsóknar.