Skelfilegt ástand í A-Afríku

Vannært barn í Sómalíu
Vannært barn í Sómalíu Reuters

Benedikt XVI páfi hvatti í dag heimsbyggðina alla til þess að koma íbúum Austur-Afríku til hjálpar þar sem hungursneyð blasir við milljónum vegna þurrka.

Segist páfi hafa miklar áhyggjur vegna frétta af ástandi mála í Austur-Afríku, einkum og sér í lagi í Sómalía þar sem gríðarlegir þurrkar eru. Páfi vonast til þess að alþjóðasamfélagið taki saman höndum við að aðstoða bræður og systur sem eru í lífshættu.

Yfir tvær milljónir barna í Sómalíu, Eþíópíu, Kenía og Djibouti þjást nú af vannæringu. Þar af er hálf milljón barna lífshættulega vannærð.

Með réttri meðhöndlun ná flest barnanna sér á nokkrum vikum. Ef ekkert er að gert geta afleiðingarnar hins vegar orðið varanlegt heilsutap, þroskaskerðing og andlát. Vannæring veikir ónæmiskerfið og gerir börn berskjölduð gegn veikindum sem þau myndu undir venjulegum kringumstæðum ráða við. Iðrasjúkdómar og niðurgangur af völdum óhreins vatns getur auðveldlega dregið börn í þessu ástandi til dauða.

Neyðaraðstoð er því lífsspursmál fyrir hundruð þúsunda barna í Austur-Afríku.

UNICEF á Íslandi óskaði í síðustu viku eftir stuðningi almennings vegna neyðaraðgerða samtakanna í Austur-Afríku. Neyðin hefur vakið afar sterk viðbrögð hjá fólki og margir lagt söfnuninni lið nú þegar en hér er hægt að styðja átakið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert