Stephenson segir af sér

Paul Stephenson yfirgefur skrifstofu Scotland Yard eftir að hafa sagt …
Paul Stephenson yfirgefur skrifstofu Scotland Yard eftir að hafa sagt af sér í dag. Reuters

Lögreglustjóri Lundúnaborgar, Paul Stephenson, hefur sagt af sér vegna ásakana um óeðlileg tengsl Scotland Yard við fjölmiðlaveldi Ruperts Murdoch.

„Ég tilkynnti innanríkisráðherra og borgarstjóra nú síðdegis frá ákvörðun minni að segja af mér sem lögreglustjóri Lundúnaborgar," segir í yfirlýsingu sem Stephenson hefur sent frá sér.

Breska lögreglan hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir það hvernig hún hefur tekið á hlerunarmálinu og Stephenson hefur legið undir ámæli fyrir tengsl hans við fjölmiðlabaróninn.

Stephenson hefur í fjölmiðlum í Bretlandi verið tengdur við fyrrum aðstoðarritstjóra News of the World, Neil Wallis, sem var nýverið handtekinn vegna símahleranna blaðsins. Meðal annars á Stephenson að hafa þegið fyrr á árinu fimm vikna dvöl á heilsuhæli sem Wallis annaðist almannatengsl fyrir. 

Eins hefur Lundúnalögreglan þurft að svara fyrir það hvers vegna Wallis var ráðinn í starf ráðgjafa lögreglunnar tveimur mánuðum eftir að hann hætti hjá News of the World.  

Þrátt fyrir að láta af embætti neitar Stephenson því að hafa gert nokkuð rangt. Þó svo að hann óski þess að hafa gert einhverja hluti á annan hátt en hann gerði. Hann muni hins vegar ekki missa svefn vegna efasemda um eigin heiðarleika.

í byrjun síðustu viku var upplýst að spæjari á vegum sunnudagsblaðsins News of the World hefði brotist inn í talhólf í síma unglingsstúlku sem myrt var árið 2002, og með því spillt fyrir rannsókn málsins.

Upplýst var að ekki einungis hefði umræddur spæjari hlerað talhólf stúlkunnar eftir að hún hvarf, heldur eytt þaðan út skilaboðum svo fleiri kæmust fyrir. Lögregla taldi því að stúlkan væri hugsanlega á lífi. Fjölskyldu hennar var gefin von.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert