Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sagði í dag að Danir hefðu ekki getað réttlætt þá umdeildu ákvörðun að herða eftirlit á landamærum sínum að Þýskalandi og Svíþjóð.
Sérfræðingar á vegum framkvæmdastjórnarinnar funduðu með dönskum yfirvöldum síðastliðinn fimmtudag og heimsóttu landamærin. „Því miður fengum við ekki viðunandi svör við spurningum okkar,“ sagði Cecilia Malmstroem, sem fer með innanríkismál framkvæmdastjórnarinnar.
„Það eru uppi viðvarandi áhyggjur af því að hert regluverk Dana og það frelsi sem sáttmálinn um Evrópusambandið og Schengen-samstarfið á að veita fari ekki saman,“ sagði Malmstroem.
„Það er undir Danmörk komið að sýna fram á að mál séu það alvarleg að þau réttlæti takmarkanir sem gætu hindrað frjálst flæði vara, þjónustu og einstaklinga á landamærunum að Þýskalandi og Svíþjóð.“
Framkvæmdastjórnin hefur sent dönskum stjórnvöldum bréf þar sem farið er fram á frekari skýringar og ekki eru útilokaðar frekari heimsóknir sérfræðinga framkvæmdastjórnarinnar til Danmerkur.