Uppnám varð á fundi breskrar þingnefndar nú síðdegis þegar maður ruddist inn í fundarsalinn og reyndi að ráðast á feðgana Rupert og James Murdoch, sem þar voru og svöruðu spurningum þingmanna. Maðurinn mun hafa kastað raksápu að feðgunum.
Wendi Deng, eiginkona Ruperts Murdoch, stökk á fætur manni sínum til varnar og virtist hún slá til árásarmannisins. Hann var handtekinn og fjarlægður.
Breska ríkisútvarpið hefur eftir einum þingmanni, að maðurinn hafi verið með raksápu á pappadiski og reynt að kasta diskinum á Murdoch.
Breskar sjónvarpsstöðvar sýna beint frá þingnefndarfundinum og einnig er sýnt beint frá fundinum á vef breska þingsins. Þar sást þegar uppnám varð í salnum og James Murdoch spratt á fætur, að því er virtist til að verja föður sinn, sem sat áfram við borðið.
Fundinum var síðan frestað í 10 mínútur.