Bandaríkjamenn sögðu í dag að Gaddafi, leiðtogi Líbíu, væri að missa tökin á ríki sínu og að hann væri á leið úr valdastól. Í fjóra áratugi hefur Gaddafi stjórnað Líbíu.
„Allt bendir til þess að aðstæður séu að snúast gegn Gaddafi,“ sagði talsmaður Hvíta hússins, Jay Carney, í dag. Hann sagði Gaddafi nú ráða yfir minna af svæði landsins en áður auk þess sem hann hefði hvorki aðgang að fjármagni né olíu. Þá kjósa sífellt fleiri ríki að viðurkenna þjóðarráð Líbíu sem réttmæt yfirvöld landsins en þjóðarráðið er hreyfing uppreisnarmanna.
Gaddafi sagði í dag að hann myndi ekki láta undan þrýstingi frá loftárásum NATO né uppreisnarmönnum. Hann fullyrti að stuðningsmenn sínir myndu ná aftur töpuðu landi.