Par í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum fullyrðir, að mynd af Jesús hafi birst á kvittun frá versluninni Walmart.
Þau Gentry Lee Sutherland og Jacob Simmons sögðu í samtali við WYFF-TV sjónvarpsstöðina, að þau hefðu keypt myndir í versluninni 12 júní og lagt kvittunina á eldhúsborðið.
Nokkrum dögum síðar tóku þau kvittunina upp og sáu að andlitsmynd hafði birst á kvittuninni.
„Við teljum að Guð hafi blessað okkur og opnað augu okkar," sagði Sutherland við sjónvarpsstöðina. Við teljum að við eigum að deila þessu fagnaðarerindi með öllum öðrum."
Haft var eftir talsmanni verslunarinnar, að líklega hafi hitabreytingar valdið því að litabreytingar urðu á kvittuninni. Þau Sutherland og Simmons þvertaka fyrir að þau hafi átt við kvittunina.