Moskítóflugur voru seinar til í Flórída í sumar og það kann að skýra hvers vegna flugnaplágan nú er ein sú versta í manna minnum þar um slóðir. Flugnagerið plagar heilu hverfin í sólarríkinu sem margir Íslendingar þekkja.
Meindýraeyðar sem eltast við moskítóflugur í Broward og Palm Beach sýslum fá hundruð kvartana á degi hverjum því smágerður bitvargurinn fýkur þangað úr Everglades fenjasvæðinu, að því er fram kom í dagblaðinu Sun-Sentinel í gær.
Moskítóflugur þessar eru mjög smágerðar og grimmar og það sem verst þykir, þær stinga og sjúga allan sólarhringinn. Yfirmaður moskítóvarna í Broward sýslu segir flugnapláguna að verða alvarlegt vandamál.
Miklir þurrkar seinkuðu því að flugurnar tímguðust. Svo fór að rigna í byrjun júní og þá fjölgaði flugunum gríðarlega.