Ógna öryggi heimsbyggðarinnar

Framkvæmdastjóri SÞ, Ban Ki-moon.
Framkvæmdastjóri SÞ, Ban Ki-moon. Reuter

Loftslagsbreytingar brugga nú „óheilagan mjöð“ veðurhamfara, sem ógna öryggi heimsbyggðarinnar, sagði framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon á fundi öryggisráðsins um möguleg áhrif loftslagsbreytinga á öryggismál í gær.

Fulltrúar þjóðanna fimmtán sem sitja í ráðinu, tókst ekki að komast að niðurstöðu um hvort loftslagsbreytingar væru ógn við alþjóðlegan frið og öryggi sem slíkar en sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ, Susan Rice, fór hörðum orðum um óeininguna innan ráðsins og sagði augljós sönnunargögn liggja fyrir um ógnir veðurfarsbreytinganna.

„Þetta eru meira en vonbrigði. Þetta er lélegt, lýsir skammsýni og í hreinskilni sagt þá er þetta vanræksla á skyldum ráðsins,“ sagði hún.

Framkvæmdastjórinn hvatti til skipulagðra aðgerða og kallaði eftir því að þróaðar þjóðir tækju forystu í því að milda áhrif loftslagsbreytinga og hvettu jafnframt þróunarlöndin til þess að leggja sitt af mörkum.

„Öfgafull veðrafyrirbrigði verða sífellt tíðari og magnaðri, bæði í ríkum og fátækum löndum og leggja ekki bara líf í rúst heldur innviði, stofnanir og fjárlög - þetta er óheilagur mjöður sem getur myndað hættuleg öryggisleg tómarúm,“ sagði Ban Ki-moon meðal annars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka