Fram kemur á fréttavef BBC að starfandi lögreglustjóri Oslóar, Sveinung Sponheim, hafi staðfest að maðurinn sem handtekinn hefur verið, grunaður um að bera ábyrgð á skotárásinni á eyju í nágrenni borgarinnar í dag, hafi sést í borginni áður en sprengingin varð.
BBC hefur eftir talsmanni norsku lögreglunnar, Ander Frydenberg, að maðurinn sé nú í yfirheyrslu á lögreglustöð á eyjunni.
Fram kemur á vef Aftenposten, að sést hafi til manns skömmu áður en hann steig inn í brúnan vörubíl í nágrenni stjórnarráðsbygginganna í Ósló, 2 mínútum áður en öflug sprengja sprakk þar.
Sponheim segir, að talið sé að þessi maður tengist bæði sprengjuárásinni og skotárásinni á eyjunni.
Lögreglan er sögð vita hver maðurinn er en vill ekki upplýsa það. Norska fréttastofan NTB segir, að grunur leiki á að árásirnar í dag séu ekki runnar undan rifjum alþjóðlegra hryðjuverkasamtaka heldur beinist þær fyrst og fremst að norskum stjórnmálaöflum.