Tengsl á milli sprengingarinnar og skotárásarinnar

Reuters

Norska lögreglan telur að tengsl séu á milli sprengingarinnar í miðborg Osló í dag og skotárásarinnar á eyju í nágrenni borgarinnar þar sem ungliðar í norska Verkamannaflokknum halda úti sumarbúðum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. Þá kemur fram að staðfest sé að sjö manns hafi látið lífið í sprengingunni og tveir séu alvarlega slasaðir.

Læknir á Háskólasjúkrahúsinu í Osló telur að hugsanlega hafi allt að eitt hundrað manns orðið fyrir meiðslum vegna sprengingarinnar fyrir utan þá sem eru alvarlega slasaðir.

Norskir hermenn hafa nú tekið sé stöðu í miðborg Oslóar til þess að gæta öryggis. Lögreglan hefur engar tilgátur um það hverjir kunni að hafa staðið á bak við sprenginguna og síðar skotárásina. Til þessa hafi verið nóg að gera við að ná tökum á ástandinu og tryggja öryggi.

Ein spurning sem velt er fyrir sér að sögn fréttamanns BBC er hvort sami einstaklingurinn hafi komið sprengjunni fyrir og því næst hafið skothríð á eyjunni í kjölfar þess eða hvort um fleiri en einn hafi verið að ræða. Þá kemur fram að óttast sé að sprengjur kunni hugsanlega líka að veraá eyjunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert