Anders Behring Breivik hefur játað í yfirheyrslum að hafa myrt að minnsta kosti 92 í Noregi í gær. Í dagbók sem hann hélt og hefur verfið birt á netinu, lýsir Breivik meðal annars hvað hann hafðist að síðustu mánuði. Hann var 80 daga að búa til sprengjuna sem sprakk í Ósló í gær.
Fram kom í fréttum norsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2, að dagbókin, sem er 1500 síður og skrifuð á ensku, og myndskeið birtust á netinu í gær skömmu áður en Breivik sprengdi sprengju í miðborg Óslóar og skaut síðan að minnsta kosti 85 ungmenni til bana utan við borgina.
Geir Lippestad, lögmaður Breiviks, sagði við norska ríkisútvarpið NRK, að skjólstæðingur sinn viðurkenndi sök í málinu. Í samtali við TV2 sagði Lippestad, að Breivik hefði sagt, að það hefði verið grimmilegt að myrða fólkið en að honum hafi þótt það nauðsynlegt.
Lippestad sagði, að Breivik hefði undirbúið ódæðið í langan tíma, hugsanlega í mörg ár.
Yfirlýsing Breiviks er skrifuð á ensku. Hann kveðst hafa skrifað um helminginn sjálfur. Afgangurinn sé skrifaður af „öðru hugrökku fólki um allan heim“. Að sögn TV2 mun Breivik hafa gengist við því að hafa birt efnið á netinu.
Í ritinu er m.a. nákvæm dagbók sem nær yfir tímabilið frá 2. maí til 22. júlí á þessu ári. Hann skrifar í aðfararorðum að ritinu að eftir margra ára skriftir sé fyrsta útgáfa verksins „2083 - Evrópsk sjálfstæðisyfirlýsing“ tilbúin. Þá kemur fram að þeir sem hafi fengið bókina séu annað hvort í hópi 7.000 fyrrverandi þjóðhollra vina hans á Facebook eða vinir þeirra.
Breivik gerir nákvæma grein fyrir því hvernig hann aflaði sprengiefnisins. Lesendur geta rakið gjörðir hans dag eftir dag þar til sprengjan sprakk. Hann kveðst eiga nóg efni í 20 sprengingar.