Paradís breyttist í helvíti

Björgunarmenn standa framan við hótel í Ósló þar sem ættingjar …
Björgunarmenn standa framan við hótel í Ósló þar sem ættingjar ungmennanna á Utøya dvöldu í nótt.

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, sagði á blaðamannafundi í Ósló í morgun, að  Utøya, þar sem að minnsta kosti 84 ungmenni voru skotin til bana í gær, hafi verið ungmennaparadís sem breytt hafi verið í helvíti.

„Þetta er þjóðarharmleikur," sagði Stoltenberg og var greinilega mjög brugðið. „Þetta er óskiljanleg martröð. Nú þarf að styðja þá sem syrgja," sagði forsætsráðherrann. Hann sagði að þetta væri versti glæpur, sem Norðmenn hefðu orðið vitni að frá síðari heimsstyrjöld.  

Utøya er lítil eyja í Tyrifirði í Hole í Buskerud. Ungliðahreyfing norska Verkamannaflokksins fékk eyjuna að gjöf árið 1950 og hefur m.a. skipulagt þar árlegar sumarbúðir fyrir félagsmenn sína. Fram kom í gær að Ungum jafnaðarmönnum á Íslandi hefði boðist að senda fulltrúa í sumarbúðirnar nú en af því varð ekki.

Talið er að um 560 ungmenni hafi verið á eyjunni í gær þegar Anders Behring Breivik, 32 ára Norðmaður, kom þangað vopnaður og skaut á alla sem fyrir honum urðu. Lögregla staðfesti í morgun að 84 hefðu fundist látnir á eyjunni.

„Það er enn sárara, að þetta er staður þar sem ég hef verið á hverju einasta sumri frá árinu 1994. Það sem ég upplifði sem ungmennaparadís var breytt í helvíti á nokkrum klukkustundum," sagði Stoltenberg og bætti við að enginn þeirra, sem lifðu af á eyjunni í gær yrði samur aftur. 

Knut Storberget, dómsmálaráðherra Noregs, sagði á blaðamannafundinum í morgun, að hættustigi vegna hryðjuverkahættu hefði ekki verið breytt eftir árásirnar í gær en umræða um slíkt héldi áfram. Norska ríkisstjórnin sat á fundi um málið fram á nótt.  

Auk þeirra, sem létu lífið á eyjunni létu sjö lífið þegar sprengja sprakk við norsku stjórnarráðsbyggingarnar í Ósló í gær. Stoltenberg sagði á fundinum, að samstarfsmenn hans væru meðal hinna látnu.  Hann sagðist einnig þekkja marga, sem létu lífið á Utøya og foreldra sumra.

Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra, og Anniken Huitfeldt, jafnréttisráðherra, fóru snemma í morgun til Sundvollen til að ræða við þá sem voru á Utøya í gær. Stoltenberg ætlar þangað síðar í dag.

Jens Stoltenberg í Ósló í morgun.
Jens Stoltenberg í Ósló í morgun.

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert