Laila Riksaasen Dahl, biskup í Tunsberg-biskupsdæmi, er í hópi tólf presta sem veita áfallahjálp á Sundvolden hótelinu. Þar dvelja mörg hundruð ungmenni sem voru í sumarbúðumi AUF, æskulýðssamtaka norska Verkamannaflokksins.
„Þetta unga fólk hefur svo óendanlega áhrifamikla sögu að segja. Svo mörg þeirra sáu nána vini sína deyja og urðu sjálf fyrir því að skotið var á þau. Þessar martraðarkenndu sögur eru svo umfangsmiklar að það er erfitt að meðtaka þær,“ sagði Riksaasen Dahl biskup í samtali við Aftenposten.
Sérstök guðsþjónusta verður haldin fyrir þá sem lentu í harmleiknum á morgun í Norderhov kirkju í Ringerike. Einnig verða beðnar bænir í öðrum kirkjum landsins fyrir þeim sem lentu í harmleiknum.
Helga Haugland Byfuglien, biskup í norsku kirkjunni. sagði þennan harmleik snerta alla. Fólk á öllum aldri hafi orðið fyrir tilgangslausu ofbeldi. Hún sagði erfitt að meðtaka það að glöð ungmenni í sumarbúðum hafi verið skotin og myrt.
„Það sem gerðist á Utøya snertir beinlínis sameiginlega framtíð okkar. Ég held að enginn hefði getað ímyndað sér þetta. Sumarbúðir eru staður þar sem ungt fólk kemur til að eiga samfélag og leika sér, þroskast og skemmta sér, tala saman, eignast nýja reynslu og verða ástfangið. Hér breiðir lífið úr sér og lýðræðið tekur á sig mynd,“ sagði biskupinn.