Ódæðismaðurinn Anders Behring Breivik, sem er í haldi norsku lögreglunnar fyrir fjöldamorð og sprengjutilræði, gat skotið fólk óáreittur í einn og hálfan tíma á Utøya áður en lögreglan kom.
Breivik gafst upp mótþróalaust þegar vopnuð lögregla kom í eyna, að sögn Aftenposten. Hann var vopnaður riffli og skammbyssu og lagði bæði vopnin frá sér. Lögreglan hleypti ekki af skoti við handtökuna.
Yfirheyrslur hafa staðið í allan dag yfir Breivik. Enn er ekki ljóst hvort hann var einn að verki eða átti sér vitorðsmann eða vitorðsmenn. Breivik hefur ekki svarað neinu afgerandi um það, að sögn Aftenposten.
Tæknirannsókn mun skera úr um hvort hann var einn síns liðs, að sögn Sveinung Sponheim starfandi lögreglustjóra í Osló. Gæsluvarðhalds verður væntanlega krafist á mánudag.
Samkvæmt upplýsingum Aftenposten var lögreglunni tilkynnt um skothríðina klukkan 17.00 að norskum tíma (15.00 að íslenskum tíma) á föstudag. Lögregluliðið fór 38 mínútum síðar af stað frá Osló og kom á bryggjuna í Utøya klukkan 18.20 að norskum tíma (16.20 að íslenskum tíma). Breivik gafst upp stundarfjórðungi síðar.