Europol hefur boðið Norðurlöndunum aðstoð við að kortleggja öfgahópa í löndunum. Sænska útvarpið hefur eftir Søren Pedersen, talsmanni Europol, að stofnunin vilji fá yfirsýn til að sjá hvort vaxandi ógn stafi af öfgahópum.
Europol hefur haft samband við lögregluyfirvöld á Norðurlöndunum og boðið fram aðstoð sína. Pedeersen segir að menn hugleiði það að virkja hluta af viðbúnaði við hryðjuverkum sem er fyrir hendi. Það er hópur um 50 sérfræðinga sem eru kallaðir til þegar brugðist er við hryðjuverkum.
Sérfræðingahópurinn mun þá vinna með starfshópi Europol gegn hryðjuverkum sem staðsettur er í höfuðstöðvunum í Haag í Hollandi. Markmiðið verður að greina mögulega ógn sem kann að stafa frá öfgaöflum í norðurhluta Évrópu.
Ekki er ljóst hvort hópurinn verður virkjaður að þessu sinni, en ákvörðun verður tekin um það á næstu dögum.
Europol mun hafa boðið Norðmönnum sérstaka aðstoð, meðal annars tæknilega aðstoð.