Samkvæmt heimildum norska blaðsins Aftenposten hefur Anders Behring Breivik, ódæðismaðurinn í Osló og Útey, sagt lögreglunni frá því við yfirheyrslur að hann hafi haft uppi enn stærri áætlanir um morð og eyðileggingu en það sem hann á endanum framkvæmdi.
Ætlun hans var sú, til viðbótar við að ráðast gegn forsætis- og olíumálaráðuneytunum, að sprengja tvær aðrar byggingar í miðborg Óslóar. Hann mun einnig hafa borið fram óskir um að fá að mæta í einkennisbúningi í dómssal vegna gæsluvarðhaldsúrskurðar á morgun klukkan ellefu að íslenskum tíma.
Breivik hefur við yfirheyrslur allan tímann haldið því fram að hann hafi verið einn að verki. Lögreglan vinnur enn að því að sannreyna þá staðhæfingu hans.