Náðu til ungmennanna á undan lögreglu

Margir almennir borgarar fóru á bátum sínum yfir til norsku eyjunnar Úteyjar til þess að bjarga ungmennunum sem flýðu þaðan undan Anders Behring Breivik sem myrti tugi manns í eyjunni síðastliðinn föstudag.

Ein þeirra heitir Line og hefur hún búið við vatnið, þar sem eyjan er, í meira en tvo áratugi. Line og nágrannar hennar gátu ekki setið aðgerðalaus að hennar sögn þegar þau heyrðu skothvellina frá eyjunni sem þau héldu fyrst að væru vegna flugelda.

Hún fór af stað á bátnum sínum í átt til eyjarinnar og sá strax nokkur ungmenni í vatninu. Sum þeirra voru blóði drifin og önnur hurfu ofan í vatnið áður en hún komst að þeim. Hún segir við AFP að ungmennin hafi verið öskrandi og grátandi.

Að minnsta koti 85 manns voru myrtir í eyjunni og margir þeirra voru skotnir eftir að hafa reynt að bjarga sér með því að leggjast til sunds. Lögreglan leitar enn að líkum í vatninu.

Björguðu mörgum tugum mannslífa

Line segist hafa farið sjö ferðir á bátnum sínum þrátt fyrir að lögreglan hafi varað fólk við því að koma nálægt eyjunni. Hún hafi flutt um sex manns í land í hvert skipti og síðan flutt þá á bifreið sinni á neyðarmóttöku. Heimildarmaður AFP segir að Line hafi bjargað yfir 40 manns.

Marcel Gleffe var staddur ásamt fjölskyldu sinni í fríi við vatnið þegar hann heyrði skothvellina og áttaði sig strax á því að um skothríð væri að ræða, en hann var um tíma í þýska hernum. Hann hljóp upp á hæð og sá í sjónauka hvar ungmennin svömluðu í vatninu á leið frá eyjunni. Hann setti síðan bát sem hann hafði til umráða á flot og fór til móts við þau.

Gleffa segir í samtali við norska Dagbladet að hann hafi farið fimm eða sex ferðir í land og náð að bjarga um 20 til 30 manns áður en lögreglan hafi beðið hann um að hætta. Aðspurður segist hann ekkert hafa hugsað um eigið öryggi heldur aðeins að reyna að hjálpa.

Line segir að um 20 bátar almennra borgara hafi bjargað ungmennum sem voru á sundi frá eyjunni. Hún segir að þeir hafi farið mun nær eyjunni en lögreglan og farið allt í kringum eyjuna til þess að leita að fólki. Einn af bátunum hafi orðið fyrir skotum. Það hafi ekkert annað verið hægt en að reyna að bjarga fólkinu og óhlýðnast fyrirmælum lögreglunnar.

Farið yfir framgöngu lögreglu

Norska lögreglan hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að bregðast seint við skotárásinni í Útey en Breivik gat óáreittur stundað fólskuverk sitt í 90 mínútur.

Talsmaður lögreglunnar, Henning Holtaas, sagði AFP að vafalaust yrði farið yfir framgöngu lögreglunnar í málinu, hvað hafi verið gert rétt og rangt og hvað hafi mátt gera betur, en núna væri öll áhersla á það að reyna að bjarga mannslífum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert