Faðir og bróðir Breiviks unnu í ráðuneytum

Bóndabærinn sem Breivik leigði á Hedmark.
Bóndabærinn sem Breivik leigði á Hedmark. Reuters

Faðir og bróðir Anders Behrings Breiviks, sem nú hefur játað á sig fjöldamorðin í Noregi á föstudag, störfuðu í ýmsum ráðuneytum, sem eru til húsa þar sem Breivik sprengdi öfluga sprengju á föstudag.

Þetta kemur fram á vef TV2 í Noregi.  Faðir Breiviks starfaði í utanríkisráðuneytinu og viðskipta- og atvinnumálaráðuneytinu í mörg ár en hálfbróðir hans vann í olíu- og orkumálaráðuneytinu og viðskipta- og atvinnumálaráðuneytinu.

Að minnsta kosti sjö létu lífið þegar sprengjan sprakk utan við olíu- og orkumálaráðuneytið á föstudag. 

Breivik ólst upp í vesturhluta Óslóar, fyrst við Hoffsveien í Nedre Silkestrå og síðan við Konventveien skammt fra. Hann bjó einnig við Maries götu í Majorstua og við Tidemanns götu á Frogner. Árið 2006 flutti hann aftur til móður sinnar á Hoffsveien en um síðustu mánaðamót flutti hann lögheimili sitt til afskekkts bóndabæjar skammt frá Rena á Hedmark, norður af Ósló.  

TV2 segir, að nágrannar lýsi Breivik sem kurteisum, feimnum, víðlesnum og gáfuðum manni sem virtist einangrast æ meir framan við tölvuna á síðustu árum. Þar tók hann þátt í umræðum og tölvuleikjum á netinu og í gær kom í ljós að hann var einnig að semja 1500 blaðsíðna langa stefnuskrá þar sem hann útskýrir ástæður sínar fyrir hryðjuverkunum sem hann framdi á föstudag.

Breivik er félagi í frímúrarareglunni og sagðist sjálfur vera kristinn og íhaldsmaður. Hann tók um tíma þátt í starfi Framfaraflokksins.

Norska lögreglan handtók Breivik eftir að hann hafði skotið 85 manns til bana á Utøya. Lögregla segir, að Breivik hafi gefist upp um leið og hann var beðinn um að leggja frá sér byssuna. Hann var þá orðinn skotfæralaus.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert