Anders Behring Breivik segir í stefnuskrá sinni, sem hann birti á netinu á föstudag áður en hann gerði hryðjuverkaárásir í Noregi, að hann sé hluti af endurvöktum samtökum musterisriddara, sem stofnuð voru í Lundúnum árið 2002.
Segir Breivik, að markmið samtakanna sé að ná pólitískum og hernaðarlegum völdum í Vestur-Evrópu. Hann segir að félagarnir séu vopnaðir og að það sé hafin krossferð gegn herferð múslima.
Í stefnuskránni segir hann að stofnendurnir séu níu: Tveir Englendingar, Frakki, Þjóðverji, Hollendingu, Grikki, Rússi, Norðmaður og Serbi. Þá hafi þrír félagar, Sví, Belgi og Bandaríkjamaður, búsettur í Evrópu, ekki getað sótt stofnfundinn.
„Allir nota dulnefni, mitt er Sigurður (Jórsalafari) en lærimeistari minn er kallaður Ríkarður ljónshjarta. Ég held að ég sé sá yngsti hér," skrifar hann.
Fram kemur á vef Dagbladet í Noregi, að ekki sé vitað hvort þessi samtök séu til í raun og veru eða hvort þau séu aðeins til í huga Breiviks.
Í stefnuskránni flokkar Breivik svikara í fjóra flokka. Segir hann að í Vestur-Evrópu séu 1010 svikarar í A- og B-flokki á hverja milljón íbúa og þeir eigi skilið dauðarefsingu. Þetta eru meðal annars stjórnmálaleiðtogar, aðalritstjórar fjölmiðla, þingmenn, blaðamenn og aðrir sem áberandi eru í þjóðmálaumræðu.
Birtur er listi yfir fjölda svikara í Vestur-Evrópu miðað við þessa skilgreiningu og eru þar taldir 322 Íslendingar.