Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, segir það óhugsandi, að bandaríska ríkið lendi í greiðslufalli. Ekki hefur enn náðst samkomulag á bandaríska þingi um að hækka svokallað skuldaþak ríkisins svo það geti tekið lán um næstu mánaðamót.
„Það er óhugsandi að okkur takist ekki að standa við skuldbindingar okkar," sagði Geithner við sjónvarpsstöðina CNN. „Það mun ekki gerast."
Hann sagði að þingið yrði að ná samkomulagi um að hækka skuldaþakið nægilega til að ríkið gæti staðið við skuldbindingar sínar næstu 18 mánuði eða þar til eftir þing- og forsetakosningar í nóvember 2012.
Barack Obama, forseti, og leiðtogar á Bandaríkjaþingi hafa án árangurs reynt að ná samkomulagi um að hækka skuldaþakið fyrir 2. ágúst.
John Boehner, leiðtogi repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, segist vonast til að hægt verði að ná samkomulagi síðar í dag áður en kauphallir eru opnaðar í Asíu.