Anders Behring Breivik hefur sagt við yfirheyrslur, að hann hafi viljað breyta stjórnmálastefnunni í Noregi með því að fremja ofbeldisverk. Lögmaður Breiviks hefur eftir honum, að hann hafi farið til Utøya til að veita Verkamannaflokknum aðvörun um að dómsdagur sé í nánd breyti flokkurinn ekki stefnu sinni.
Á vef VG er haft eftir lögmanninum Geir Lippestad, að Breivik hafi fylgst vel með dagskrá sumarbúða ungliðahreyfingar Verkamannaflokksins í Utøya og vitað að Gro Harlem Brundtland, fyrrum forsætisráðherra Noregs, ætlaði að heimsækja búðirnar þennan dag.
„Hann vildi skaða Verkamannaflokkinn og ungmennastarf hans eins mikið og mögulegt var. Hann segir að félagar í Verkamannaflokknum séu marxistar," hefur VG eftir Lippestad.
Hann segir, að Breivik hafi verið rólegur og yfirvegaður í yfirheyrslunni, sem stóð yfir í 10 tíma í gær.
Breivik kemur fyrir dómara á morgun þar sem krafist verður formlegs gæsluvarðhalds yfir honum. Breivik er sagður vilja að dómhaldið verði fyrir opnum dyrum og þar vilji hann útskýra fyrir fjölmiðlum hvaða ástæður lágu að baki ódæðisverkunum.
„Hann hefur mikið á móti mörgum. Þar á meðal öllum helstu samfélagsstofnununum," segir Lippestad við VG.
Lögmaðurinn segir, að Breivik hafi sett sér þau markmið að breyta þjóðfélaginu með róttækum hætti. Fyrri tilraunir hans til að hafa áhrif með skrifum og starfi í stjórnmálahreyfingu hafi þó ekki borið árangur. Hann hafi m.a. sent fjölmiðlum lesendabréf en þau hafi ekki fengist birt. Hann hafi því ekki talið sig eiga annars úrkosti en að beita ofbeldi.