Ætlaði að ráðast á Gro Harlem

Gro Harlem Brundtland.
Gro Harlem Brundtland. Reuters

Norskir fjölmiðlar segja í dag, að Anders Behring Breivik hafi ætlað að ráðast til atlögu á Utøya þegar Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, var þar í heimsókn á föstudag. Í yfirheyrslum um helgina hafi hann hins vegar sagt, að sér hefði seinkað. 

Brundtland ávarpaði fund í sumarbúðum ungliðahreyfingar Verkamannaflokksins á eyjunni á tímabilinu frá 11:10 til 12:40 á föstudag og dvaldi í nokkra klukkutíma í viðbót á eyjunni. 

Behring Breivik kom hins vegar til Utøya eftir að Brundtland var farin þaðan. Lögregla fékk fyrstu tilkynningu um skothvelli á eyjunni klukkan 17:26 en þá hafði skotárásin staðið yfir í um 20 mínútur.  

Behring Breivik  hefur einnig skýrt frá því, að hann hafi ætlað að valda meira tjóni í Ósló og ætlað að sprengja tvær sprengjur í viðbót í miðborginni.

Hann verður leiddur fyrir dómara í dag, líklega um klukkan 11 að íslenskum tíma, þar sem krafist verður gæsluvarðhalds.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert