Anders Behring Breivik, 32 ára Norðmaður sem hefur játað á sig fjöldamorðin í Noregi á föstudag, kom í dómhúsið í Ósló um klukkan 11:30 að íslenskum tíma. Mun lögregla krefjast 8 vikna gæsluvarðhalds yfir honum.
Dómari hefur þegar úrskurðað, að dómhaldið fari fram fyrir luktum dyrum, bæði vegna rannsóknarhagsmuna og af öryggisástæðum. Mikill fjöldi fréttamanna, bæði norskra og erlendra, er í dómhúsinu til að fylgjast með.
Breivik hefur óskað eftir því að dómþingið verði opið og mun lögmaður hans leggja fram þá kröfu við upphaf réttarhaldanna.
Breivik hefur ekki sést í dómhúsinu en fréttamenn sáu þegar honum var ekið frá lögreglustöðinni í miðborginni á 12. tímanum.