Lögregla í Noregi telur, að hryðjuverkin, sem Anders Behring Breivik hefur játað á sig, varði við lagagrein, sem tekin var upp í almenn hegningarlög í Noregi, um afbrot gegn mannkyninu. Viðurlög eru allt að 30 ára fangelsi.
Undir þetta lagaákvæði fellur m.a. þjóðarmorð.
Blaðið Aftenposten hefur eftir Christian Hatlo, lögmanni hjá lögreglunni í Ósló, að engin ákvörðun hafi verið tekin um þetta enn sem komið er.
Odd Reidar Humlegård, yfirmaður norsku sakamálalögreglunnar, sagði við Stavanger Aftenblad í kvöld, að engar vísbendingar hafi fundist á Utøya sem bendi til þess að fleiri hafi verið að verki en Breivik þegar skotárásin var gerð þar á föstudag.
Ungmenni, sem voru á eyjunni, sögðust sum hafa séð borgaralega klæddan mann í för með Breivik og að hann hafi einnig skotið á fólk á eyjunni. Humlegård segir hins vegar ekkert hafa fundist við rannsókn sem bendi til þess.
Yfir 100 þúsund manns komu saman í miðborg Óslóar í kvöld til að minnast fórnarlambanna í hryðjuverkaárásunum á föstudag.