Segir Breivik hafa verið dáleiðandi

Anders Behring Breivik.
Anders Behring Breivik. Reuters

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph í dag að Anders Behring Breivik, sem framdi voðaverkin í Ósló og Útey í Noregi síðastliðinn föstudag, hafi verið í nánum tengslum við samtök í Bretlandi sem kalla sig English Defence League.

Forystumenn innan samtakanna hafa viðurkennt að hafa verið í tengslum við Breivik og að hann hefði hitt einhverja á vegum þeirra þegar hann heimsótti London í mars á síðasta ári. Þá hafi hann verið í reglulegum samskiptum við meðlimi í English Defence League í gegnum internetið, ekki síst samskiptavefinn Facebook. Sjálfur hefur Breivik haldið því fram að um 600 manns í samtökunum hafi verið vinir hans á Facebook.

Einn forystumanna English Defence League, sem vildi ekki láta nafns síns getið, segist hafa rætt nokkrum sinnum við Breivik í gegnum Facebook og segir hann hafa komið vel fyrir og virkað mjög greindur. Þá hafi hann haft einhver dáleiðandi áhrif eins og sagt hefði verið að Adolf Hitler hafi haft á þá sem umgengust hann.

Í eins konar stefnuskrá Breivik sem hann birti á internetinu áður en hann framkvæmdi voðaverk sín er víða skírskotað til English Defence League. Þar segist hann meðal annars hafa lagt samtökunum til hugmyndafræðilegt efni og hugmyndir að aðferðafræði.

English Defence League hafa lýst því yfir að þau hafi engin tengsl við Breivik en yfirvöld í Bretlandi hafa sagt að ummæli Breivik um tengsl sín við samtökin verði skoðuð mjög alvarlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert