Norskir fjölmiðlar birtu í morgun nöfn og myndir af hluta fórnarlamba norska hryðjuverkamannsins Anders Behrings Breiviks. Ekki er talið að lokið verði að bera kennsl á alla sem fundist hafa látnir, fyrr en undir vikulokin. Enn er nokkurra saknað eftir hryðjuverkaárásirnar.
Kennslanefnd, sem í sitja tannlæknar, meinafræðingar og tæknimenn lögreglu, vinna að því að bera kennsl á líkin, sem fundust á Utøya og í stjórnarráðsbyggingum í Ósló. VG hefur eftir Sigrid L. Kvaal, réttarmeinafræðingi, að þetta sé afar erfitt verk, einkum vegna þess hve fórnarlömbin eru mörg ung.
Lögreglan hefur ákveðið að birta nöfn þeirra sem létust um leið og staðfest kennsl hafa verið borin á líkin.
Tilkynnt var í gær, að 68 hefðu látið lífið á Utøya og 8 í sprengingunni í Ósló. Þessar tölur kunna þó að hækka.