Breivik setur skilyrði

Anders Behring Breivik.
Anders Behring Breivik. Reuters/Jon-Are Berg-Jacobsen/Aftenposten via Scanpix

Anders Behring Breivik heimtar að orðið verði við ýmsum kröfum hans áður en hann tjáir sig um meintar hryðjuverkasellur. Fréttavefur Verdens Gang segir að hann hafi ekki sýnt nein merki þess að hann iðrist fjöldamorðanna.

Breivik segir í yfirlýsingu, sem hann birti, að aðrar sellur eða hópar verði virkjaðir . Lögreglan óttaðist að hann gæfi dulbúin fyrirmæli frá dómþinginu á mánudaginn var.

Geir Lippestad, verjandi Breivik, segir að skjólstæðingur hans hafi upplýst að tvær slíkar sellur séu í Noregi og fleiri í öðrum vestrænum löndum. Lögreglan rannsakar þessar upplýsingar en hefur ekki fundið neinar sannanir þess að fjöldamorðinginn sé að segja satt.

Breivik hefur farið með sömu rulluna í lögregluyfirheyrslunum og birtist í yfirlýsingunni sem hann birti á netinu. Hann tjáir sig í löngu máli um þau atriði en er fámáll um hinar meintu sellur.

„Hann hefur sett fram nokkrar kröfur sem við verðum að verða við áður en hann tjáir sig um sellurnar. Þetta eru kröfur af ýmsu tagi. Okkur er ómögulegt að verða við sumum þeirra,“ sagði Kraby lögfræðingur lögreglunnar.

Ein krafan mun snúast um mat sem Breivik fær í fangelsinu. Aðrar munu varða mögulega refsingu hans. 

Fram kemur í sænsku blaði að hann hafi viljað fá tölvu með yfirlýsingunni svo hann geti áfram unnið að ritun hennar. Þá vildi hann að í tölvunni yrði niðurhalað efni af Wikileaks.

Eins mun Behring hafa krafist þess að erlendir sérfræðingar verði fengnir til að meta andlegt heilbrigði hans. Lögreglan mun hafa hafnað þeirri kröfu.

Fyrir dómþingið á mánudag, þar sem hann var settur í gæsluvarðhald. vildi Breivik klæðast sérstökum einkennisbúningi  en lögreglan neitaði að sækja búninginn í íbúð hans. Þá vildi hann fá yfirlýsingu sína útprentaða svo hann gæti lesið upp úr henni fyrir réttinum, en fékk bara valda kafla á pappír.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert