Alþjóðlegir sérfræðingar segja að Norðmenn verði að taka viðbragðskerfi sitt til gagnrýninnar endurskoðunar. Það virðist hafa byggst á þeirri skoðun að hryðjuverjaárás væri ekki yfirvofandi og enn síður sprengjutilræði og skotárás í beinu framhaldi.
Talsvert hefur verið fjallað um það sem þykir sein viðbrögð við útkallinu í Útey, þar sem ódæðismaður skaut fjölda fólks. Í fréttaskýringu sem AP fréttastofan birti segir að Anders Behring Breivik hafi átt von á sérsveit norsku lögreglunnar á hverri mínútu til að stöðva hann.
Þess í stað ók sérsveitin á staðinn, 40 km leið, því hún hafði ekki þyrlu til að flytja sig. Þá þurfti almennur borgari að koma til bjargar þegar bátur lögreglunnar bilaði á skammri siglingu til eyjarinnar. Það tók lögregluna nærri 90 mínútur að komast út í eyna. Þá hafði byssumaðurinn sært 68 til ólífis.
Alþjóðlegir sérfræðingar sögðu í dag að stjórnvöld í Ósló og öryggissveitir landsins hafi lært alvarlega lexíu af fjöldamorðinu, sem varð enn verra en ella vegna ónógs undirbúnings fyrir hryðjuverk. Vitnað er í Mads Andenæs, prófessor í lögum við háskólann í Ósló, sem sagði þetta ófyrirgefanlegt. Einn nemenda hans var myrtur og frænka hans bjargaði lífi sínu með því að fela sig í runnum í eynni.
Þau sem lifðu árásina af sögðust hafa átt í vandræðum með að koma neyðarköllum sínum til skila því símaverðir neyðarlína neituðu að svara öðrum hringingum en þeim sem tengdust sprengjunni í Ósló.
Norska lögreglan ræður einungis yfir einni fjögurra sæta þyrlu, sem staðsett er á flugvelli norðan við Ósló, að sögn Sturla Henriksbo, talsmanns lögreglunnar. Tvö sætanna eru fyrir flugmennina og eitt fyrir tækjastjóra.
„Þessi þyrla er aldrei notuð til að flytja neinn, hvað þá Delta sveitina,“ sagði Henriksbo. Finn Abrahamsen, fyrrverandi lögreglumaður í Ósló sem stýrði sveit sem fékkst við ofbeldisbrot, sagði að hægt hefði verið að nota þyrluna sem færanlega stjórnstöð á vettvangi.
En það hefði ekki heldur verið hægt á föstudaginn var því allir þyrluflugmenn lögreglunnar voru í sumarfríi. Delta sveitin, sem er sérsveit lögreglunnar, hefði getað notað herþyrlu en talið var að það tæki of langan tíma að kalla til slíka þyrlu frá næstu herstöð í Rygge, sem er um 60 km fyrir sunnan.
Þess vegna ók sérsveitin um 40 km á vettvang þar sem lögreglumennirnir biðu eftir fari með báti, einum slöngubáti. Á meðan mátti heyra skothvelli og neyðaróp frá Útey sem var í rúmlega 500 metra fjarlægð.