Gaf ekkert til kynna um áform sín

Anders Behring Breivik.
Anders Behring Breivik. Reuters/Jon-Are Berg-Jacobsen/Aftenposten via Scanpix

Tove Øvermo, fyrrum stjúpmóðir norska fjöldamorðingjans Anders Behrings Breiviks, segir að hún hafi ekki orðið vör við neitt í fari hans sem hefði gefið vísbendingar um hvað hann áformaði. „Þetta er mikið áfall," segir Øvermo.

Tove Øvermo, sem starfaði í norsku utanríkisþjónustunni, skildi við Jens, föður Breiviks, þegar Anders var unglingur. Hún segist hafa haldið sambandi við unga manninn en Breivik fjallar einnig um samband þeirra í stefnuskránni, sem hann birti áður en hann lét til skarar skríða á föstudag.

Øvermo segir við AP, að Breivik hefði verið venjulegur Norðmaður, „kurteis drengur. Það er engin leið að skilja þetta."  

Hún giftist föður Breiviks þegar drengurinn var fjögurra ára. Hann heimsótti þau oft í Suður-Frakklandi þar sem þau bjuggu og Jens býr enn.

„Hann virtist vera hamingjusamur, eðlilegur drenguri," segir Øvermo. „Samband okkar var mjög gott og við höfðum það gott saman. Mér fannst að hann kynni vel við mig."

Øvermo og faðir Breiviks skildu áratug síðar, eða um svipað leyti og tengsl feðganna rofnuðu. Eftir skilnaðinn var Breivik áfram í sambandi við Øvermo í tölvupósti en þau hittust ekki oft.

Hún segist hafa séð Breivik síðast í mars eða apríl þegar hann heimsótti hana á heimili hennar fyrir sunnan Ósló. Þá bjó hann hjá móður sinni í Ósló. Hún sagði, að Breivik hefði virst eðlilegur.  Hann talaði talsvert um bók, sem hann sagðist vera að skrifa, en vildi lítið tala um hvað hún fjallaði.

Øvermo segir einnig, að Breivik hafi talað um stjórnmál „eins og hver annar. Hann ræddi aldrei um íslamstrú og það hatur sem hann hlýtur að hafa fundið fyrir í garð hennar."  

Øvermo segist hafa fyllst hryllingi þegar hún uppgötvaði, hvað þessi upplýsti og dagfarsprúði maður hafði gert.

„Fólk segir stundum: Mér er brugðið. En það veit ekki hvernig raunverulegt áfall er, líkamlega og andlega. Þetta var svo óraunverulegt. Ég trúði þessu ekki. Ég neitaði að trúa því. Ef ég hefði áður haft minnsta snefil af grunsemdum um að ekki væri allt með felldu varðandi hann þá liði mér kannski betur."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert