Myndin af norska fjöldamorðingjanum Breivik skýrist smátt og smátt eftir því sem fleiri atriði er hann varða koma í ljós. Hann var atvinnulaus og fullur af hatri.
Hver er Anders Breivik, hafa margir spurt. Einnig hvað það var sem fékk hann til að myrða 76 samlanda sína? Lögreglan hefur spurt þessara spurninga þegar hún hefur rannsakað manninn sem hefur játað á sig ódæðisverkin í síðustu viku.
Talsvert hefur verið fjallað um ótta Breivik við aukin áhrif múslíma í evrópu en nú kemur æ fleira í ljós um daglegt líf hans.
„Hann var atvinnulaus og að undirbúa þessa aðgerð,“ sagði Pål Fredrik Hjort Krab, lögregluforingi, á blaðamannafundi í Ósló.
„Er vitað hvort hann var einhvern tíma í einhverri vinnu,“ spurði blaðamaður.
„Ég held að hann hafi verið atvinnulaus síðasta árið fyrir þennan verknað - hann var í vinnu - ég held að hann hafi verið einhvers konar sölumaður. Já, það var sala,“ sagði Krab.
Geir Lippestad, lögmaður Breiviks, talaði um andlegt heilbrigði skjólstæðings síns og sagði: „Allt þetta mál bendir til þess að hann sé geðveikur.“
Hann sagði einnig að Breivik hafi notað eitthvað lyf eða efni til að keyra sig áfram í árásunum. Lögreglan hefur yfirheyrt móður Breiviks og ætlar að ræða við fleiri úr fjölskyldu hans.
Lögreglan er einnig að útskýra það sem sumum finnst hafa verið langur viðbragðstími hennar.
„Þeir létu okkur vita um klukkan 17.30 um að eitthvað væri í gangi og átta mínútum síðar báðu þeir um aðstoð. Á þeirri stundu var hópur sem berst gegn hryðjuverkum tilbúinn hér og þeir fóru varlega og gengu í land á eynni klukkan 18.25,“ sagði Johan Fredriksen aðalvarðstjóri.